Við gætum sagt okkur úr ESB síðar

villandi

Ísland hefði formlega heimild til að yfirgefa Evrópusambandið eftir inngöngu samkvæmt 50. grein Lissabon-sáttmálans, sem tryggir rétt ríkja til einhliða úrsagnar. [1] Hins vegar yrði úrsögn mun flóknari og áhættusamari en innganga, eins og reynsla Breta af Brexit sýnir, en þeir urðu fyrir verulegum efnahagslegum skaða og stjórnmálakreppu þar í landi. [2] Fyrir lítið ríki eins og Ísland yrði úrsögn sérstaklega áhættusöm, þar sem landið yrði í mun veikari samningsstöðu gagnvart ESB eftir inngöngu, og gæti ekki reiknað með að fá aftur sömu kjör og það nýtur nú með EES-samningnum. [3] Ísland stæði því eftir með minni aðgang að innri markaði Evrópu og reglusetningu en áður, enda hefur ESB meiri hvata til að gera úrsögn óaðlaðandi en fyrir Brexit. [4] Úrsögn er því formlega möguleg, en ljóst er að hún gæti reynst svo torveld og kostnaðarsöm að í reynd yrði hún óframkvæmanleg nema við mjög óvenjulegar aðstæður.

Í 50. grein Lissabon-sáttmálans kemur fram að öll aðildarríki ESB hafi skýran rétt til að ganga úr sambandinu með því að tilkynna formlega um slíkan vilja til leiðtogaráðs sambandsins. Í kjölfarið hefst allt að tveggja ára samningsferli um útgönguskilmála. [1] Þetta þýðir að Íslendingar gætu lagalega séð yfirgefið sambandið ef við kysum að gera það eftir inngöngu.

Reynsla Bretlands af Brexit er hins vegar mjög lýsandi fyrir hversu flókið og kostnaðarsamt slíkt ferli er í raun. Þó Bretland hafi formlega getað yfirgefið ESB reyndust viðræður mjög erfiðar, tímafrekar og leiddu til pólitísks óstöðugleika, efnahagslegra skakkafalla og skertum aðgangi að evrópskum mörkuðum. [2] Ólíklegt er að Ísland gæti fengið betri skilmála en Bretland, enda er ESB fast á því að ríki utan sambandsins fái ekki sömu réttindi og aðildarríki.

Við úrsögn gæti Ísland þurft að semja upp á nýtt um aðgang að innri markaði ESB, en ekkert tryggir að núverandi aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) yrði í boði aftur á sömu forsendum, [3] þ.e. ef EES-samstarfið væri óbreytt eða jafnvel enn til staðar í núverandi mynd. Ísland myndi þá mögulega missa þann nánast óhefta markaðsaðgang sem nú er til staðar og þurfa að sætta sig við lakari kjör og jafnvel minni áhrif á reglugerðir en þau litlu áhrif sem það þó getur haft sem aðili að EES.

Einnig ber að hafa í huga að frá Brexit hefur ESB lagt áherslu á að ríki utan sambandsins njóti ekki sömu kjara og aðildarríki. Brexit-samningurinn sýndi skýrt að ESB hefur áhuga á að draga úr hvata annarra ríkja til úrsagnar. [4] Ísland væri í veikri samningsstöðu við úrsögn og afstaða ESB myndi því leiða til þess að Ísland gæti lent í verri stöðu en það hafði áður en inngönguferli hófst.

Heimildir

  1. 50. grein Lissabon-sáttmálans
  2. Evrópuþingið: Útganga aðildarríkis úr ESB
  3. Álit Efnahags- og félagsmálanefndar ESB um Ísland sem umsóknarríki
  4. European Policy Centre: Gætu dómínó-áhrif Brexit dregið dilk á eftir sér?
Birt 19. nóv. 2025.