70% útflutnings fer til Evrópuríkja

villandi

Fullyrðingin um að „70% útflutnings Íslands fari til Evrópu/ESB/EES“ er villandi miðað við stöðuna í dag. Hún byggir á eldri tölum sem ná eingöngu til vöruútflutnings en er iðulega sett fram eins og hún nái til alls útflutnings eða jafnvel allra utanríkjaviðskipta, auk þess sem tölunni er stillt upp með „Evrópu,“ „ESB“ og „EES“ eins og um sama hagkerfi væri að ræða. Samkvæmt nýjustu gögnum fóru árið 2024 annars vegar um 62,5% af vöruútflutningi til ESB-ríkja [1] [2] [3] og hins vegar um 37,5% af þjónustuútflutningi til ESB-ríkja [4] [5] [6], eða um helmingur heildarútflutnings (vörur og þjónusta). [7]

Tölurnar sem fullyrðingin byggir á virðast fyrst og fremst koma úr sérútreikningi Hagstofu fyrir samtökin Já Ísland, þar sem fram kom að árið 2010 hafi 70,5% útflutnings Íslands farið til ríkja Evrópusambandsins [8]. Frumheimild Hagstofu liggur ekki fyrir á opinberum vettvangi og óljóst er hvort þar sé einungis um vöruútflutning að ræða, en miðað við útflutningstölur frá sama tíma er það líklegasta skýringin. Þessi prósentutala hefur svo lifað sjálfstæðu lífi í umræðunni (sjá dæmi í umræðukafla neðar), oft án þess að tekið sé fram að hún hafi eingöngu náð til ársins 2010 og þá liggur á reiki hvort um sé að ræða heildarútflutning eða ekki. Nýjustu gögn Hagstofu og umfjöllun um verndartolla ESB sýna að árið 2024 námu vöruútflutningstekjur Íslands til ESB-ríkja um 599 ma. kr. af samtals um 959 ma. kr. vöruútflutningi, eða 62,5% af vöruútflutningi í heildina. [7]

Þegar þjónusta er tekin með breytist myndin enn frekar. Heildarútflutningur þjónustu var 982,7 ma. kr. árið 2024 [7], en af því námu tekjur frá ESB-ríkjum um 368,3 ma. kr., eða um 37,5% [1] [4]. Samtals nam útflutningur Íslands því um 1.941,7 ma. kr. það ár, þar af um 967,3 ma. kr. til ESB, sem jafngildir rétt tæplega 50% af heildarútflutningi. Bandaríkin eru stærsta einstaka viðskiptalandið í þjónustuútflutningi [4] [9] (315,3 ma. kr. árið 2024) og í raun nærri jafnstór markaður og ESB í heild. Bretland, með 86,1 ma. kr., [4] [10] er einnig stór þjónustuviðskiptavinur utan ESB, svo sífellt stærri hluti þjónustuútflutnings fer í raun til markaða utan ESB.

Í ljósi þessa villandi að halda því fram, án fyrirvara, að „70% útflutnings Íslands fari til Evrópu/ESB/EES“ eins og oft er gert í pólitískri umræðu um EES-samninginn eða hugsanlega aðild að ESB. Raunverulegt hlutfall hefur verið á reiki undanfarna áratugi en fullyrðingin um 70% stenst ekki í dag þó hún kunni að hafa verið nær lagi í vöruútflutningi árum áður, eða þegar einnig er litið til EFTA ríkja. Þá má nefna að Evrópuríki hafi þegar verið stærsti vöruútflutningsmarkaður Íslands áratuginn fyrir gildistöku EES-samningsins, þannig að fullyrðingin kann einnig að veita falska mynd bæði af núverandi stöðu og sögulegri þróun eftir aðild að EES. Að lokum miða tölur frá Hagstofunni við skráningarland aðila, en mörg alþjóðleg fyrirtæki flytja vörur í gegnum Holland [11] eða eru með rekstur skráðan þar eða í Möltu, sem kann að skekkja tölurnar að einhverju leyti.

Umræðan

Heimildir

  1. Hagstofa Íslands: Vöruviðskipti, Útflutningur og innflutningur eftir löndum 2024
  2. Hagstofa Íslands: Vöruviðskipti eftir löndum 2024 á CSV sniði
  3. Hagstofa Íslands: Vöruviðskipti innan ESB á CSV sniði
  4. Hagstofa Íslands: Þjónustuviðskipti, Þjónustuviðskipti við útlönd eftir löndum 2024
  5. Hagstofa Íslands: Þjónustuviðskipti eftir löndum 2024 á CSV sniði
  6. Hagstofa Íslands: Þjónustuviðskipti innan ESB 2024 á CSV sniði
  7. Hagstofa Íslands: Þjónustuviðskipti eftir ítarlegri flokkun og löndum 2024
  8. Vísir: „Yfir 70% af útflutningi Íslands er til ESB“ Ekki fundust frumheimildir sem liggja til grundvallar á þessum tölum eða hvort um sé að ræða heildarútflutning.
  9. Hagstofa Íslands: Þjónustuviðskipti eftir ítarlegri flokkun og löndum 2024, Bandaríkin
  10. Hagstofa Íslands: Þjónustuviðskipti eftir ítarlegri flokkun og löndum 2024, Bretland
  11. Eurostat: „Hvað eru Rotterdam-áhrifin“?
Birt 27. nóv. 2025.