Tollar ESB eru ekki fordæmisgefandi

villandi

Ekki er um að ræða dómsúrskurð, en rangt er að halda því fram að verndartollar ESB á kísilmálma frá Íslandi og Noregi séu „ekki fordæmisgefandi.“ [1] Evrópusambandið beitir hér 112. gr EES-samningsins [2] til að setja verndartolla á vöru sem fellur undir fríverslun samkvæmt samningnum, þrátt fyrir að framleiðsla í löndunum lúti að sama regluverki og innan ESB sjálfs, en Ísland og Noregur telja þessa beitingu ekki í samræmi við texta og anda EES-samningsins. [3] Með því að nýta þetta úrræði til að skerða markaðsaðgang EES-ríkja hefur ESB í reynd skapað pólitískt og stjórnsýslulegt fordæmi, jafnvel þótt framkvæmdastjórnin lýsi aðgerðinni sem „sértæku tilviki“ [1] sem eigi ekki að endurtaka.

Evrópusambandið hefur samþykkt þriggja ára verndarráðstafanir á tiltekna kísilmálma sem ná til Íslands og Noregs þótt báðar þjóðirnar séu aðilar að EES og iðnaðurinn starfi eftir sama regluverki og innan ESB. [4] Í tilkynningu ESB er vísað til 112. gr. EES-samningsins, öryggisákvæðis sem heimilar samningsaðilum að grípa til bráðabirgðaaðgerða ef alvarlegir efnahagslegir, félagslegir eða umhverfislegir erfiðleikar skapast eða það stefnir í slíkar truflanir. Í öðrum verndarráðstöfunum ESB, til dæmis á stáli árið 2018, [5] hafa EES-ríkin hins vegar verið sérstaklega undanþegin tollum á grundvelli náinna tengsla og jafnræðis á innri markaði, svo í framkvæmd er um að ræða breytingu á afstöðu gagnvart Íslandi og Noregi með þessum aðgerðum.

Forsætisráðherra Íslands hefur sagt frá því að Ursula von der Leyen hafi í símtali „staðfest“ að verndaraðgerðirnar væru „sértækt tilvik“ og „ekki fordæmisgefandi“ og að ákvörðunin snerist „ekki um EES-samninginn,“ og lagði áherslu á að EES yrði áfram kjölfestusamningur í efnahagsstefnu Íslands. [1] Á sama tíma hafa forsætisráðherra og utanríkisráðherra ítrekað að ákvörðunin sé ekki í samræmi við texta og anda EES-samningsins og að Ísland muni beita sér gegn ákvörðuninni á vettvangi EES. [3] Um er að ræða nýmæli, enda voru EES-ríkin sérstaklega undanþegin verndarráðstöfunum árið 2018 þegar ESB setti sambærilega tolla. [5] Hér er því verið að beita úrræði gegn aðildarríkjum EES-samningsins þvert á framkvæmd áður fyrr. Það eitt og sér er pólitískt og stjórnsýslulegt fordæmi, hvort sem ESB kýs að kalla það því nafni eða ekki.

Viðbrögð bæði Norðmanna og Íslendinga hafa verið á þann veg að hér „hrikti í stoðum EES-samstarfsins.“ [6] Jafnframt segir Christian Justnes, formaður Fellesforbundet, að „þegar Noregi og Íslandi er haldið utan við hluta innri markaðar ESB, samtímis því sem okkar iðnaður lýtur sömu reglum og ber sama kostnað og iðnaðurinn innan ESB, er það áskorun gagnvart EES-samningnum sem skapar óþarfa óvissu um hvar við höfum ESB næstu árin.“ Þá heldur hann áfram og segir jafnframt að „þessi aðgerð getur orðið til þess að veikja tengsl Noregs og Íslands við Evrópu.“ [7] Að lokum segir Diljá Mist Einarsdóttir, stödd í Brussel þann 20. nóvember, að „auðvitað hvílir þetta mest á Norðmönnum og Íslendingum en Liechtenstein er líka að hafa áhyggjur af fordæminu.“ [8] Af viðbrögðum að dæma er því ástæða til að taka söguskýringu framkvæmdastjórnar ESB með fyrirvara.

Umræðan

Heimildir

  1. RÚV: Kristrún segir Von der Leyen hafa staðfest að verndaraðgerðir væru ekki fordæmisgefandi
  2. EES-samningur: 112. grein
  3. RÚV: Ákvörðun ESB ekki í samræmi við texta og anda EES-samningsins
  4. Fréttatilkynning: Framkvæmdastjórn ESB leggur verndartolla á ákveðna kísilmálma
  5. ESB undanskilur aðila að EES-samningnum (sjá gr. 80 og 121)
  6. RÚV: Hriktir í stoðum EES-samstarfsins
  7. Mbl.is: Ísland í verri málum
  8. Mbl.is: Mikil kergja og óánægja í Brussel
Birt 20. nóv. 2025. Síðast uppfært 30. nóv. 2025.